Jæja, nú fær maður kannski áheyrn, ef það er það sem maður leitar eftir

Skemmtilegt, þetta blogg. Svo tilgangslaust og svo mikilvægt í senn.
Aldrei tókst mér sem unglingi að halda út dagbók, svo vel mætti vera, fyrir utan nokkrar tilraunir þar sem deginum var nánast lýst í smáatriðum, frá því hvað ég fékk mér í morgunmat til þess sem ég var að læra í skólanum, horfa á í sjónvarpinu og hlusta á í útvarpinu, Rás 2 kom þar sterkt inn með Jóni Ólafs. Jú, og auðvitað voru einhverjar hjartans umræður, ungir piltar og Duran Duran. En, burt séð frá þessum örfáu færslum, tókst mér engan vegin að halda þetta út. Það er líka bara svo leiðinlegt að handskrifa, að mér finnst. Ekki var ég neitt betri í fringrasetningu, en með tilkomu tölva, ég er ekki svo gömul en samt, þetta var nokkuð nýtt undir sólinni þegar ég var unglingu, þá hefur mér farið fram í fingrasetningunni og innsláttarhraðanum. Allar ritgerðirnar í hinum ýmsu háskólum hafa hjálpað til, já, hraðinn kom þar sterkur inn því maður er alltaf í tímaþröng.
En núna er komið blogg! Allt í einu, reyndar fyrir nokkrum árum á blogspot.com, fann ég til nokkurs áhuga á að skrifa hugleiðingar mínar. Getur verið að dagbækur unglingsáranna hafi ekki verið eins freistandi vettvangur afhjúpunnar hugans vegna leyndarinnar sem yfir henni hvíldi? Er ég ein þeirra sem langar að skrifa niður leyndarmál hugsana minna og skilja þau eftir á glámbekk? Kannski er það þess vegna sem ég hef “áunnið” hjá mér áhuga á að skrifa blogg.
Og, nú, er ég hingað komin því enginn nennir að skoða blogspotið lengur. Ég lauma þá kannski inn einhverjum þankargangi þar sem ég verð að koma í orð en vil halda leyndu, því enginn les þar lengur eitt né neitt. Eða, svo virðist vera; ég hef örugglega rangt fyrir mér í þeim málum.
Þannig að verið velkomin að skoða, þið sem nennið að lesa rembinginn sem myndast þegar hugur og hönd tala saman!